"Kynjadýr"
Verkefni fyrir fimmta til sjötta bekk 
Tími: Rúmur klukkutími (2x40mín). 

Myndefni: Goðsögukennd dýr (ýmist eftir teikningum, lýsingum eða eftir ímyndunarafli nemanda). 

Verkfæri: Hvítt blað (ca.A3,- þykkt), svört málning (og pensill), kol auk fyrirmynda af kynjadýrum (ef sú leið er valin). 

 
 
 
 
Tilgangur: Að gefa ímyndunarafli nemandans lausan tauminn með þessu frjálsa myndefni. Einnig þjálfast notkun kola (þetta verkefni er því líkt "Afmynduðum andlitum", bara einfaldara og hæfir yngri nemendum).  Þar að auki þarf nemandinn að teikna með svartri málningu með pensli.  Það reynir á yfirvegun og sjálfsöryggi því allir eru hálfhræddir við að gera mistök ("mistök" eru í lagi - við þurfum ekki að gera hlutina fullkomna og vera of varkár). 
 
 Aðferð:  Kennari talar um kynjaskepnur vítt og breitt.  Hann reynir að fá af stað hugstormun meðal nemenda með því að fá þau til að stinga upp á skrítnum útgáfum af furðudýrum (þrír hausar, langur hali, doppótt skinn..o.s.frv.).  Þetta upphaf er til þess fallið að örva ímyndunarafl þeirra. Ef þörf er á getur hentað að sýna myndir af skrímslum, en passa þarf að hafa þær myndir nógu einfaldar til að krökkunum fallist ekki hendur.  Einnig er tilvalið að grípa niður í gömlum annálum eða ferðabókum þar sem lýsingar á skrímslum eru áberandi.  Ævintýri eru einnig tilvalin, eða goðsögur.  Því næst eru nemendur fengnir til að teikna dýrið.  Sumir vilja teikna fyrst með blýanti, en það getur haft það í för með sér að nemandinn gleymi sér í smáatriðum eða teikni of smátt fyrir pensilinn sem á eftir kemur.  Æskilegt er að telja þeim kjark í að mála beint með penslinum, og vera óhrædd við mistök (enda er þetta skemmtilegra).  Þeir sem teikna fyrst með blýanti skulu hins vegar vera meðvitaðir um að teikna ekki of smátt.  Þegar teikningin er þornuð eru kolin tekin upp og þau notuð til að gefa myndinni dýpt, áferð og stemningu.  Lögð skal áhersla á að nudda kolið, og teikna ekki með því (enda var málningin notuð til þess).  Meta þarf eftir aðstæðum hvernig best er að bera sig að, en oft kemur skemmtilega út að láta geisla eða neista sindra af dýrinu.  Í öllu falli þarf að fara yfir allan hvítan flöt með kolinu, jafnvel þar sem myndin á að vera mjög ljós (það er æfing út af fyrir sig að vinna mjög ljóst með kolinu). 
 

Frekari úrvinnsla: Myndirnar koma afar vel út á svörtum grunni, ef þær fara upp á vegg.  Þær eru svipsterkar og koma vel út meðal litríkra mynda á sýningarvegg. 

Tenging við námsefni:  Auðveldlega má finna tengingu við goðafræði.  Ýmsar kynjaverur í Ásatrú koma sterklega til greina sem myndefni.  Einnig má taka fram furðudýr úr öðrum sambærilegum hugarheimum sem og ævintýrum.  Ekki má gleyma aldagömlum ferðalýsingum með tilheyrandi ýkjusögum um náttúrufar hér á landi.  Þær eru kennsluefni út af fyrir sig (um framandi dýralíf, eða eðli sögusagna).  En að sjálfsögðu má verkefnið líka vera fullkomlega frjálst að þess leyti, og óbundið tilteknum skepnum.